Verkefnið

Markmiðið með INTERFACE verkefninu er að efla brothættar byggðir í að finna nýstárlegar lausnir á vandamálum sem við er að eiga. Brothættar byggðir eru þéttbýli og dreifbýli (borgarhlutar, bæir og þorp og tilheyrandi dreifbýli) sem hafa glímt við langvarandi íbúafækkun og efnahagslega og félagslega hnignun – málefni sem hefur verið áhyggjuefni og á dagskrá stjórnvalda í öllum löndum Evrópu.

Sú nálgun að vinna með „Brothættar byggðir“ varð til á Íslandi þar sem þessi grasrótarnálgun er notuð í nokkrum samfélögum sem hafa glímt við langvarandi fólksfækkun og hnignun. Aðferðarfræðin byggist upp á því að efla og virkja krafta samfélagsins með aðstoð samfélagsþjálfara (coaches) og leiðbeinenda til að gera íbúum kleift að finna nýstárlegar lausnir samfélaginu til hagsbóta.

INTERFACE verkefnið styðst einnig við námskrá og þjálfunarefni sem voru útbúin í ERASMUS+ verkefninu “Furthering Innovative Entrepreneurial Regions of Europe – Svæðisbundin þróun nýsköpunar og frumkvöðlahugsunar í Evrópu“ (FIERE). Það efni var þróað enn frekar nú í INTERFACE og var búin til og innleidd langtíma þjálfunaráætlun fyrir íbúa brothættra samfélaga og fulltrúa sveitarfélaga.

Lykilatriði markþjálfunar er skapandi ferli sem hvetur þann sem tekur þátt í þjálfuninni til að hámarka persónulega og fagmannlega getu. Hlutverk þjálfarans er að spyrja spurninga og að vera áhugasamur um að aðstoða íbúa við að finna eigin lausnir sem og að tryggja og leggja áherslu á eignarhald nemandans á hugmyndum og lausnum. Þessi nálgun hefur verið mjög mikilvæg þar sem áhersla INTERFACE verkefnisins hefur verið á valdeflingu íbúa brothættra byggða sem leitast við að skilgreina sjálfir og ná sínum markmiðum.